Varði doktorsritgerð um neyslumynstur Íslendinga á 17. og 18. öld
Jakob Orri Jónsson hefur varið doktorsritgerð sína í fornleifafræði, Pots, Pipes and Plates. An Archaeology of Consumption during the Danish Trade Monopoly, við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Andmælendur við vörnina voru dr. Douglas J. Bolender rannsóknalektor við Háskólann í Massachusetts, Boston, og dr. Jette Linaa, sýningarstjóri á Moesgaard Museum og dósent við Háskólann í Árósum.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Gavins Lucas, prófessors við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Audrey Horning, prófessor við Queens University, Belfast, dr. Guðmundur Jónsson, prófessor við Háskóla Íslands, og Timo Ylimaunu, dósent við Háskólann í Oulu.
Steinunn Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands miðvikudaginn 23. mars síðastliðinn. (Smellið hér til að skoða myndir frá vörninni).
Um rannsóknina
Í Evrópu og Norður-Ameríku er litið á árnýöld, sérstaklega 17. og 18. öld, sem upphaf neyslubyltingar og neytendasamfélags. Á Íslandi er þetta tímabil hins vegar oft séð sem tími efnahagslegrar stöðnunar og almennrar fátæktar. Í rannsókn sinni kannar Jakob Orri Jónsson togstreituna milli hinnar íslensku hugmyndar um „niðurlægingartímabilið“ og hinnar hnattrænu hugmyndar um efnahagslegan vöxt og neyslubyltingu og hvor sýnin nær betur utan um aðstæður á Íslandi á árnýöld. Tóbakspípur úr leir og leirker eru könnuð, litið er á fjölda þeirra í fornleifafræðilegu samhengi 17. og 18. aldar á Íslandi, hvernig og hvenær þau koma inn í íslenska fundaflóru og hvernig þau dreifast eftir félagslegri og efnahagslegri stöðu og aðgangi að mörkuðum. Neyslumynstrin eru borin saman við neyslumynstur frá Norðvestur Evrópu og þau nýtt til að öðlast skilning á þýðingu og nýtingu lúxusvarnings á Íslandi og hvort hægt sé að skilgreina Ísland þessa tíma sem neyslusamfélag.
Um doktorinn
Jakob Orri Jónsson lauk BA og MA prófi í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hann býr í Austurríki.