Starfsreglur Rannsóknastofu í fornleifafræði við Háskóla Íslands

1. Grein. Almennt

Rannsóknastofa í fornleifafræði er starfrækt við Háskóla Íslands í samræmi við 4. grein reglna um Hugvísindastofnun. nr. 1022/2009. Hún heyrir undir Hugvísindasvið og starfar innan vébanda Hugvísindastofnunar.

2. Grein. Hlutverk og markmið:

Rannsóknastofa í fornleifafræði er vettvangur fyrir rannsóknir í fornleifafræði og fyrir vísindalegt samstarf og verkefni sem varða málefni og miðlun fornleifafræði. Markmiðið er að:

  • skipuleggja rannsóknaverkefni og eiga aðild að þeim
  • styrkja innviði og halda úti grunnrannsóknum í íslenskri fornleifafræði
  • standa fyrir ráðstefnum og málstofum
  • eiga í samstarfi við stofnanir innan og utan Háskóla Íslands,
  • beita sér fyrir útgáfu og annars konar miðlun fræðilegs efnis um fornleifafræði.

3. Grein. Aðild:

Rétt til aðildar að stofunni eiga fastráðnir kennarar, nýdoktorar og doktorsnemar í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Stjórn stofunnar er heimilt að veita öðrum fræðimönnum, sem þess óska, aðild, jafnt þeim sem starfa innan Hugvísindasviðs sem utan.

4. Grein. Stjórn og fundir:

Rannsóknastofan skal hafa þriggja manna stjórn sem kjörin er til tveggja ára í senn á aðalfundi. Stjórnarseta er ólaunuð. Að lágmarki skal einn stjórnarmaður vera fastur starfsmaður námsbrautar í fornleifafræði og formaður stjórnar skal alltaf koma úr þeirra röðum. Formaður stjórnar er valinn á aðalfundi og sé hann eini stjórnarmaðurinn með fast starf í fornleifafræði skal að auki kjósa varamann hans sem tekið gæti við stjórnarformennsku ef þörf krefði. Stjórn skal halda a.m.k. einn stjórnarfund á ári, auk aðalfundar, og senda Hugvísindastofnun upplýsingar, þegar kallað er eftir þeim, til birtingar í ársskýrslu.

Rannsóknir innan Rannsóknastofu í fornleifafræði eru að jafnaði fjármagnaðar með styrkjum og vinnuframlagi fastra starfsmanna. Stofan getur sótt um starfstengda styrki hjá Hugvísindastofnun eftir því sem hún býður stofum upp á slíka styrki en að auki leitað samninga við Sagnfræðistofnun um hlutdeild í fjárveitingu hennar. Hugvísindastofnun veitir þeim sem vinna að rannsóknum innan stofunnar aðstöðu eftir því sem henni er kleift og stjórn ákveður.

Stofan nýtur þjónustu Hugvísindastofnunar um bókhald og daglegan rekstur eftir samkomulagi. Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi Háskóla Íslands.

Reglur Rannsóknastofu í fornleifafræði eru staðfestar af stjórn Hugvísindastofnunar.