Header Paragraph

Ný bók um klausturhald á Íslandi

Image

Út er komin bókin Monastic Iceland eftir Steinunni Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði Háskóla Íslands. Útgefandi er Routledge.

Í bókinni er fjallað um klausturhald á Íslandi á miðöldum. Við ritun bókarinnar var stuðst samhliða við efnislegar og ritaðar heimildir en markmiðið var varpa ljósi á mikilvægi klausturhalds og kaþólskrar kristni í lífi miðaldafólks hérlendis. Heimildirnar hrekja þá goðsögn að íslensk klaustur hafi verið einangraðar og fámennar stofnanir sem einkum þjónuðu því hlutverki að vera elliheimili fyrir höfðingja eða rekin með öðrum hætti hér á landi en annars staðar. Að lifa og starfa innan veggja klaustranna þýddi heldur ekki rólegt og einangrað líf án áhrifa frá nærliggjandi samfélagi.

Í klaustrunum lifði og starfaði yfirleitt fjöldi fólks, jafnt leikir sem lærðir, börn og fullorðnir. Klaustrin gegndu einnig mikilvægu hlutverki fyrir allan almenning vegna þeirrar samfélagslegu þjónustu sem þau buðu uppá í formi verklegrar og bóklegrar kennslu eða við hjúkrun og lækningar. Í bókinni er jafnframt fjallað um það hvernig klaustrafólk brást við í harðæri jafnt sem góðæri á þeim fimm öldum sem klaustrin voru starfrækt hérlendis. Saga þeirra er lituð erfiðleikum vegna pólitískra átaka, náttúruhamfara og farsótta en þau gengu líka í gegnum tímabil mikillar farsældar og velgengni. Enda þótt kaþólsk kristni og klausturhald grundvallist á alþjóðlegri hugmyndafræði er í bókinni ekki litið svo á að hún hafi borist hingað til lands og aðlagast íslensku samfélagi, heldur að Ísland hafi verið hluti af evrópsku samfélagi miðalda.

Steinunn Kristjánsdóttir hefur unnið að rannsóknum á sviði miðaldafornleifafræði, kynjafornleifafræði, klaustra og klausturstarfsemi. Hún hefur stjórnað viðamiklum fornleifarannsóknum á miðaldaklaustrum og gefið út fjölda bóka um rannsóknir sínar, þar á meðal Sagan af klaustrinu á Skriðu og Leitin að klaustrunum - klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Nú stýrir hún rannsóknaverkefninu Samspil manns og náttúru - umsvif íslenskra Benediktsklaustra á miðöldum sem hlaut öndvegisstyrk  úr Rannsóknasjóði 2022. Steinunn stundaði háskólanám við Gautaborgarháskóla og lauk þaðan BA-prófi 1993, MA-prófi 1994 og doktorsprófi í fornleifafræði árið 2004. Doktorsritgerð hennar, The Awakening of Christianity in Iceland, byggði á rannsókninni Mörk heiðni og kristni sem Steinunn stýrði á árunum 1997 til 2000, en markmiðið með því verkefni var að rannsaka uppruna og útbreiðslu kristni á Íslandi frá landnámi til 1200. Hún hefur verið prófessor við Háskóla Íslands frá 2012.

Image