Leita að minjum um ritmenningu miðalda
Gullhringur og hátískuhúfa frá 17. öld er meðal þess sem fræðimenn og nemendur í fornleifafræði við Háskóla Íslands hafa grafið upp í sumar í rústum langlífasta klausturs Íslandssögunnar að Þingeyrum. Markmið uppgraftarins er að varpa ljósi á bókagerð í klaustrinu en þar koma m.a. að gagni tæki og tól sem fornleifafræðin deilir með jarðfræðingum Háskólans.
Það er þrútið loft og rigningarlegt en hlýtt í veðri þegar við tökum hús á Steinunni Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði, og nemendum hennar síðla ágústmánaðar að Þingeyrum í í Austur-Húnavatnssýslu. Útsýnið af þessum forna klausturstað, sem liggur mitt á milli Hóps og Húnavatns, er stórfenglegt til allra átta og þau sem eiga leið um þjóðveg eitt komast varla hjá því að sjá kirkjuna á Þingeyrum þar sem hún lónar eins og bátur mitt á milli vatnanna tveggja. Það er því kannski ekki að undra að Benediktínamunkar hafi valið þar stað fyrir klaustur fyrir hartnær 900 árum.