Kynjagleraugum beitt á sögu nunnuklaustra á Norðurlöndum
Nunnuklaustur í Norður-Evrópu eru viðfangsefni Sigrúnar Hannesdóttur í doktorsverkefni hennar í fornleifafræði við Sagnfræði- og heimspekideild HÍ. Að hennar sögn hafa slík klaustur hingað til notið mun minni athygli en munkaklaustur í rannsóknum og vísbendingar um að þau hafi ekki alveg notið sannmælis heldur.
Á Íslandi voru rekin fjölmörg klaustur á kaþólskum tíma. Þau heyrðu undir erkibiskupsdæmið í Niðarósi í Noregi eins og klaustur víðar í Norður-Evrópu, það er Noregi, Grænlandi, Færeyjum og eyjum í kringum Bretland. Í tveimur íslensku klaustranna höfðust nunnur við, Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu sem stofnað var 1186 og Reynistaðarklaustri í Skagafirði sem var sett á fót tæplega öld síðar, eða 1295. Rannsókn Sigrúnar snýr að þeim og sex öðrum nunnuklaustrum sem stofnuð voru í Noregi og Grænlandi, þau fyrstu snemma á 12. öld, en flest þeirra voru rekin fram að siðaskiptunum á 16. öld.
„Markmið verkefnisins er tvíþætt. Annars vegar að greina hvernig nunnuklaustrin hafa áður verið sett fram í fræðilegum skrifum og kanna t.a.m. áhrif þjóðernishyggju og feminísma í klausturrannsóknum. Hins vegar að endurskoða sögu þeirra í samhengi evrópskrar kirkjusögu,“ útskýrir Sigrún.