Header Paragraph

Hvaða máli skipta kenningar í fornleifafræði?

Image

Út er komin bókin Archaeological Situations eftir Gavin Lucas, prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Bókin er inngangur að kennilegri fornleifafræði þar sem efnið er kynnt fyrir háskólanemendum á nýstárlegan hátt. Í stað þess að fjalla um kenningar eins og þær séu sjálfstæðar og ótengdar því hvernig verkin eru unnin er ljósi varpað á hvernig kenningar liggja til grundvallar öllum viðfangsefnum fornleifafræðinga. Lagt er upp með verkefni eins og þau sem nemendur fást við í námskeiðum í fornleifafræði og sýnt hvar tengingar liggja milli kenninga og starfs fornleifafræðingsins. Sýnt er hvernig kennilegar hliðar eru á öllum störfum fornleifafræðinga, hvort sem um er að ræða vettvangsvinnu, skráningu og greiningu gagna, ritun fornleifafræðilegs texta, þróun fornleifafræðilegrar röksemdafærslu eða mat á gildi fornleifa fyrir samtímann. Bókin svarar þeirri spurningu sem fyrr eða síðar kemur alltaf upp í öllum námskeiðum í kennilegri fornleifafræði: Hvaða máli skipta kenningar?

Smellið hér til að nálgast upplýsingar um bókina á vef Routledge, útgefanda bókarinnar.

Gavin Lucas lauk doktorsnámi við Cambridge-háskóla en hefur starfað við Háskóla Íslands frá 2006 og hafa rannsóknir hans beinst að fornleifafræði nýaldar og fornleifafræðikenninga. Hann hefur stýrt fjölda rannsóknaverkefna hér á landi, m.a. í Skálholti, Viðey og Seltjarnarnesi en auk þess unnið við fornleifarannsóknir víða um heim, t.d. á Ítalíu og Suður-Afríku. Gavin hefur birt fjölda greina um fornleifafræðikenningar og er höfundur nokkurra bóka, þ.á m. Understanding the Archaeological Record (Cambridge University Press, 2012), Writing the Past (Routledge, 2019), Making Time (Routledge, 2021) og Archaeological Situations (Routledge, 2022). Hann hlaut Rivers Medal viðurkenningu bresku mannfræðistofnunarinnar The Royal Anthropological Institute árið 2022 fyrir framlag sitt til kennilegrar fornleifafræði og aðferðafræði.

Image