Header Paragraph

Benediktínar á Írlandi á miðöldum

Image
Colmán Ó Clabaigh

Írski Benediktínamunkurinn og miðaldafræðingurinn Colmán Ó Clabaigh mun halda fyrirlesturinn, Benedictines in Medieval Ireland, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands fimmtudaginn 10. nóvember, kl. 12. Fyrirlesturinn er haldinn á vegum Rannsóknastofu í fornleifafræði við Háskóla Íslands en í boði öndvegisverkefnisins Samspil manns og náttúru – samfélög Benediktína á miðöldum á Íslandi sem er rekið er fyrir fjárframlag úr Rannsóknasjóði Íslands. Verkefnið, sem er þverfaglegt, miðar að því að skoða hvernig Benediktínaklaustrin á Þingeyrum (1133–1551) og á Kirkjubæjarklaustri (1186–1543) brugðust við harðærum í rekstri sínum, svo sem af völdum svartadauða og Litlu ísaldar. Verkefnið miðar einnig að því að kanna hvernig kynjaðir þættir birtust í rekstri þessara tveggja klaustra, sem og að skoða þær fjölbreyttu leiðir sem klaustrafólk fór til þess að samstilla sig náttúrunni, um leið og það hélt hollustu sinni við reglur Benediktína. 

Í fyrirlestrinum mun Colmán fjalla um karl- og kvenkyns fylgjendur reglna heilags Benedikts á Írlandi og á meginlandinu frá áttundu til fjórtándu aldar. Sjónum verður sérstaklega beint að hlutverki svartmunka við stofnun biskupsstólsins í Dyflinni á valdatímum írsk-norræna konungsins, Sigtryggs silkiskeggs Ólafssonar (989–1036), sem er meðal helstu persóna í Njáls sögu.

Colmán Ó Clabaigh er munkur í benediktínaklaustrinu Glenstal Abbey á Írlandi og miðaldafræðingur en hans sérsvið er klausturhald 12.-16. aldar á Írlandi. Colmán hefur birt fjölda ritaverka um klausturhald á miðöldum. Þar á meðal má nefna bókina The Friars in Ireland 1224–1540 (Dublin, 2012) sem hlaut hann viðurkenningu The National University of Ireland fyrir árið 2013. Eins má hér nefna bókarkafla eftir Colmán í The Cambridge History of Ireland (2019) og The Cambridge History of Monasticism in the Medieval Latin West (2020). Sem stendur ritstýrir hann bókinni Brides of Christ: Women and Monasticism in Medieval and Early Modern Ireland sem er væntanleg innan tíðar. Colmán hefur sinnt kennslu á Ítalíu, í Nígeríu, Írlandi og Bandaríkjunum, m.a. við Boston College. 

Boðið er uppá kaffi og meðlæti að loknum fyrirlestri um kl. 13.

Image
Colmán Ó Clabaigh